Mynd: Ólafur Ingi Ólafsson, Halakoti 2023
Nú þegar snjór og klaki er að minnka þá langar okkur að biðja íbúa að skoða aðeins aðstæður í kringum sig fyrir næsta moksturstímabil.
Skv. vegalögum nr. 80/2007 er veghelgunarsvæði við stofnvegi 60m (30m frá miðlínu vegar) og 30m við tengi- og héraðsvegi (15m frá miðlínu vegar). Það er því óheimilt að reisa mannvirki (t.d skilti eða girðingar) innan veghelgunarsvæðis.
- Stofnvegir í Flóahreppi eru þjóðvegur 1 og Gaulverjabæjarvegur
- Tengivegir í Flóahreppi eru Hamarsvegur, Vorsabæjarvegur, Villingaholtsvegur, Önundarholtsvegur og Urriðafossvegur.
- Héraðsvegir eru SEM DÆMI Langholtsvegur, Ölvisholtsvegur, Oddgeirshólavegur, Hnausvegur, Arnarhólsvegur, Kolsholtsvegur og allar HEIMREIÐAR heim að býlum, atvinnufyrirtækjum, kirkjustöðum, skólum eða öðrum opinberum stofnunum.
Vegagerðin er skilgreindur veghaldari ofangreindra vega nema síðustu 50 metrana á héraðsvegum/heimreiðum sem falla á landeiganda.
Síðustu vikur hefur það komið upp nokkrum sinnum að girðingar of nærri vegum hafa valdið vandræðum við snjómokstur. Í flestum tilfellum eru það staurar með bandi eða sléttum vír sem settur hefur verið innan veghelgunarsvæðis. Girðingar of nærri vegum geta einnig valdið erfiðleikum við vegheflun. Það sama á við tré sem gróðursett hafa verið of nærri vegum.
Við biðjum því íbúa og atvinnurekendur vinsamlegast um að skoða vel hvernig aðstæður eru hjá ykkur og bregðast við ef þörf er á. Sveitarfélagið og Vegagerðin geta hafnað snjómokstri ef ekki er brugðist við ábendingum þar sem þarf.
Að lokum er vert að benda á að komi mokstursmenn að lokuðum hliðum eða ef band hefur verið strengt yfir heimreiðar er almennt ekki mokað og það sama gildir ef hlið eru of þröng (hlið þurfa að vera amk 4m breið miðað við rammaákvæði með hliðsjón af girðinga- og vegalögum).