Skóla- og velferðarþjónusta

Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings

Þann 2. janúar 2014 tók til starfa Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings. Byggðasamlagið samanstendur af sveitarfélögunum Grímsnes- og Grafningshreppi, Bláskógabyggð, Flóahreppi, Hrunamannahreppi, Hveragerði, Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Sveitarfélaginu Ölfusi.

Skóla- og velferðarþjónustunni er ætlað að vinna á grundvelli heildarsýnar í málefnum einstaklinga og fjölskyldna og að stuðla að sjálfbærni skóla og stofnana aðildarsveitarfélaga þar sem áhersla er lögð á mikilvægi snemmtækrar íhlutunar, fræðslu, forvarnir og þverfaglegt samstarf.

Skóla- og velferðarþjónusta Árnesþings veitir ýmis konar stuðningsþjónustu þeim fjölskyldum og einstaklingum í Flóahreppi sem þurfa á stuðningi við uppeldi og aðbúnað barna að halda.
Félagsráðgjafar vinna að málefnum barna og ungmenna samkvæmt barnaverndarlögum og í umboði Félagsmálanefndar Velferðarþjónustu Árnesþings.
Markmið barnaverndar er að tryggja börnum og ungmennum viðunandi uppeldisskilyrði með því að styrkja fjölskyldur og beita stuðningsúrræðum til verndar einstaka börnum þegar það á við. Höfuðáhersla er lögð á samvinnu við foreldra hvað varðar stuðningsúrræði, sem eru valin eftir því sem þurfa þykir hverju sinni.


Börn eiga rétt á vernd og umönnun. Foreldrum ber að sýna börnum sínum umhyggju og nærfærni og annast þau eins og best hentar hag og þörfum þeirra, búa þeim viðunandi uppeldisaðstæður og gæta velfarnaðar þeirra. Öllum ber okkur að sýna börnum virðingu og umhyggju.
Markmið barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Öllum foreldrum og þeim sem hafa samskipti við börn stendur til boða almenn ráðgjöf hjá félagsráðgjafa.

Heimasíða Skóla- og velferðarþjónustu Árnesþings