Krakkaborg

Leikskólinn Krakkaborg
Þingborg, 803 Selfoss. Símar 480-0151
Leikskólastjóri: Sara Guðjónsdóttir sara@krakkaborg.is 

Heimasíða Krakkaborgar

 

Leikskólinn Krakkaborg hóf starfsemi í Villingaholtsskóla árið 1982 og stóðu þá foreldrar að rekstri leikskólans. Árið 1996 flutti leikskólinn í félagsheimilið Þingborg. Hraungerðishreppur og Villingaholtshreppur voru rekstraraðilar frá 1996 fram til ársins 2004 en þá kom Gaulverjabæjarhreppur inn í reksturinn. Í ágúst 2004 flutti leikskólinn í grunnskólahúsnæðið í Þingborg. Árið 2015 var tekið í notkun stærra og endurbætthúsnæði í Þingborg. Þar er nú rekinn þriggja deilda leikskóli fyrir nemendur á aldrinum 12 mánaða til 6 ára. Rekstraraðili í dag er Flóahreppur. Leikskólinn hefur aðgang að íþróttasal félagsheimilisins í Þingborg. Lóðin er stór og með fjölbreyttu umhverfi þar sem áhersla er lögð á að nýta náttúruna sem best.

Hugmyndafræðin

Til að uppfylla sett markmið aðalnámskrár leikskóla, starfar leikskólinn Krakkaborg eftir Framfarastefnu heimspekingsins John Dewey. Hann segir að þroski barnsins stjórnist af tvennu: umhverfinu og meðfæddri þörf þess til þroska. Lögð er áhersla á að efla gagnrýna og skapandi hugsun sem kveikir áhuga og leiðir til skýrrar hugsunar. Hann vildi að börnin fengju tækifæri til að læra með því að rannsaka og framkvæma sjálf. Dewey lagði áherslu á að leikurinn væri frumafl í þroska barnsins og sú leið sem barnið notar til að læra. Í leik öðlast barnið reynslu af samskiptum sínum við önnur börn sem leiðir til frekari félagslegrar færni. Í Krakkaborg er lögð rík áhersla á leik barna og skapandi starf.