- Fréttir
- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf og menning
- Flóahreppur
- Hafa samband
- English
- Viðburðadagatal
Flóahreppur er falleg og friðsæl sveit á Suðurlandi sem nær yfir austanverðan Flóann og liggur á milli laxveiðiánna Þjórsár og Hvítár. Svæðið er sögulegt og skartar fjölbreyttri og fallegri náttúru sem einkennist meðal annars af fjölbreytilegu gróðurfari og miklu fuglalífi. Flóahreppur samanstendur af þremur hreppum, Hraungerðis-, Gaulverjabæjar- og Villingarholtshreppi. Sveitarfélagið er 290 km² að stærð og búa 710 manns í hreppnum.
Í Flóahreppi er að finna mestu víðsýni í byggð á landinu. Frá Þjórsárveri er fjallahringurinn líklega hvergi á Íslandi víðari og meiri. Til norðurs sést til Þórisjökuls og í suðri blasa Vestmannaeyjar við. Til vesturs má sjá allt til Fagradalsfjalls á Reykjanesi og til Mýrdalsjökuls í austri. Á milli er svo stórkostleg fjallasýn; Selvogsheiði, Skálafell, Ingólfsfjall, Búrfell, Kálfstindar, Hlöðufell, Hestfjall, Vörðufell, Hekla, Tindfjöll, Þríhyrningur, Eyjafjallajökull og Seljalandsmúli.
Urriðafoss er í Flóahreppi í hinni voldugu Þjórsá. Mesta hraunbreiða jarðar, Þjórsárhraunið mikla, liggur undir stærstum hluta Flóans en það er mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi frá því að ísöld lauk. Hraunið kom upp í miklu eldgosi austan Þórisvatns fyrir um 8.700 árum. Gossprungan var 20-30 km stór en úr henni kom upp gífurlegt magn hrauns, eða allt að 30 km³. Hraunið rann yfir Skeið, Flóa og í sjó framundan Stokkseyri og Eyrarbakka, um 140 km frá eldstöðvunum.