17. júní í Flóahreppi

Þjóðhátíðardagur Íslendinga er haldinn hátíðlegur í Flóahreppi. Kvenfélögin og Ungmennafélagið Þjótandi standa að mestu að hátíðarhöldunum en með aðkomu og stuðningi sveitarfélagsins.

Á góðviðrisdögum er notast við útivistarsvæði Þjótanda í Einbúa sem er fallegt og gróið svæði við Hvítá. Keyrt er upp Oddgeirshólaveg, ekið hægra megin við klettana og þar er aðkoman að svæðinu. Mikilvægt er að loka hliðum ef komið er að þeim lokuðum. Ef veður er ekki hagstætt til útiveru á 17. júní eru hátíðarhöld færð inn í eitt af félagsheimilum sveitarfélagsins.


17. júní 2024 var haldinn hátíðlegur í Flóahreppi að vanda og var dagskráin vegleg í ár af tilefni 80 ára afmæli lýðveldisins.

Íbúar og fyrirtæki flögguðu íslenska fánanum víða í tilefni dagsins.

Sveitarstjóri Flóahrepps fór í heimsókn til íbúa sem búsettir eru í sveitarfélaginu sem verða 90 ára á árinu eða eru eldri en 90 ára. Fengu þau sumarblóm og glaðning, bókina Fjallkonan, þú ert móðir vor kær ásamt lýðveldiskökum sem bakaðar voru af tilefni stórafmælis lýðveldisins.

Í Einbúa var haldin hátíðar- og skemmtidagskrá.

Ungmennafélagið Þjótandi stóð fyrir fótboltakeppni, leikjum og þrautum fyrir allan aldur.

 

Fjallkonan flutti ljóð og var sú stund hátíðleg fyrir framan fjölmenni í brekkunni í Einbúa.

Fjallkona ársins var Þórunn Sturludóttir Schacht frá Fljótshólum og flutti hún ljóðið Flóinn og fólkið þar eftir Eirík Einarsson frá Hæli.

 

Flóinn og fólkið þar


Menn segja þig kostlítinn, svartan,

hið síðsta um hið víðlenda þing;
ég lýsi þig búlegan, bjartan,
með bláfjallahringinn í kring.

Með samtaka hjálp vorra handa,
á héraðið stofnfé í sjóð,
er glæði þann ættjarðaranda,
sem einkennir farsæla þjóð.

Þá eykur þú fjallhringur fríður,

á fögnuð hvers sjáandi manns,

og hvelfingin, himininn víður,

mun hýrna við giftu vors lands.

 

Já, Flói minn, fallegur er hann

sá framtíðar himininn þinn:

í blíðviðris-hillingum ber hann

hvern bæ upp á gullstólinn sinn

 

- Eiríkur Einarsson frá Hæli

 

 

 

 

Kristín Lilja Sigurjónsdóttir í Egilsstaðakoti flutti ræðu en hún lauk meistaraprófi í kennslufræði frá Háskólanum á Akureyri á dögunum.

Sveitarstjóri kynnti nýja hefð sem snýr að því að planta nýju tréi í Einbúa á hverju ári. Í ár var gróðursettur fallegur Fjallareynir frá Gróðrastöðinni í Kjarri og verður það fyrsta tréið í Þjóðhátíðarlundi í Einbúa.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Alexander Freyr Olgeirsson trúbador frá Selfossi flutti nokkur lög og tók brekkan vel undir.

 

Að lokum var boðið upp á sérstakar lýðveldiskökur í boðið Forsætisráðuneytisins og sveitarfélagið bauð upp á kaffi og svaladrykki.

Gestir fengu eintak af bókinni Fjallkonan, þú ert móðir vor kær.

 

 

 

 

 

 

 

Dagurinn tókst vel og gleðin skein úr andlitum gesta. Góð mæting var í Einbúa og veðrið lék við hátíðargesti. Íbúar og aðrir eru hvattir til að nýta sér þetta frábæra útivistarsvæði í Einbúa.

Undirbúningsnefnd 17. júní ásamt öllum þeim sem komu að undirbúningi, fegrun svæðisins og dagskránni á einn eða annan hátt eru færðar kærar þakkir fyrir þeirra mikilvæga framlag.


17. júní 2023 var haldinn hátíðlegur í Flóahreppi að vanda.

Íbúar og fyrirtæki flögguðu íslenska fánanum víða í tilefni dagsins og sveitarfélagið flaggaði við stofnanir sínar.

Sveitarstjóri Flóahrepps fór í heimsókn til allra íbúa sveitarfélagsins sem náð hafa 90 ára aldri og færði þeim veglega morgunverðarkörfu frá sveitarfélaginu.

Eftir hádegi var svo hátíðar- og skemmtidagskrá á útivistarsvæðinu í Einbúa. Þar stóð Ungmennafélagið Þjótandi fyrir fótboltakeppni, leikjum og þrautum fyrir allan aldur. Knapar settu hátíðlegan blæ á samkomuna með fánareið undir ættjarðaróð og stóðu heiðursvörð um fjallkonu Flóahrepps. Gestir sungu saman Lofsönginn, þjóðsöng Íslendinga. Fjallkona ársins var Kristín Lilja Sigurjónsdóttir í Egilsstaðakoti. Hún flutti ljóðið Flóavísur eftir Gísla Halldórsson.

Enn ég horfi yfir Flóann
og í hljóði vísu syng,
túnið, börðin, mýrar, móann,
mosaþúfur, berjalyng.
Lengst í fjarska sé ég síðan
safírbláan, mikið víðan
fagursveigðan fjallahring.
 
Hér er mjúkt og gott að ganga,
gata sjaldan upp í mót.
Mjaðarjurt og ilmgrös anga,
allra meina fæst því bót.
Skammt mun þó til hulduheima
hörmulegar sagnir geyma
Heljarstaðir, Hamarsgrjót.
 
Enginn veit hvað okkar bíður
eða hvar í kvöld mun gist.
Elfur tímans áfram líður,
eflaust margt í burtu flyst.
Fullvíst er samt það, að þó hann
þætti blautur, gamla Flóann
helst ég kýs sem himnavist.

 

Halla Kjartansdóttir í Ölvisholti hélt ræðu en hún kláraði sveinspróf í múraranum á dögunum.

Umhverfisverðlaun Flóahrepps árið 2023 voru veitt og í ár voru verðlaun veitt fyrir heimili og fyrirtæki. Hjónin Sigurður og Bjarnheiður á Neistastöðum 1 hlutu verðlaun fyrir heimili og Hurðarbaksbúið ehf. hlaut verðlaun í flokki fyrirtækja. Í verðlaun var viðurkenningarskjal frá sveitarfélaginu ásamt fallegum úlfareyni frá gróðrastöðinni Kjarri í Ölfusi. Að auki verður sett upp merki sem við bæina.

Hafdís Gígja Björnsdóttir í Uppsölum tók lagið með gestum og fékk aðstoð frá nokkrum ungum söngvurum.

Dagurinn var hinn skemmtilegasti. Vel var mætt í Einbúa og veðrið lék við okkur. Gestir nutu samverunnar og veðurblíðunnar og alls þess góða sem svæðið og samfélagið okkar hefur upp á að bjóða.

Kvenfélögum og Ungmennafélaginu Þjótanda eru færðar þakkir fyrir þeirra framlag til hátíðarhalda ásamt öðrum þeim sem lögðu á sig vinnu við að gera daginn góðan svo sem með slætti og umhirðu í Einbúa, uppstillingum á rúllum fyrir þrautabraut og annað sem fylgir hátíðarhöldum sem þessum.

Hér eru myndasöfn frá 17. júní fyrri ára:

17. júní 2019

17. júní 2018