- Fréttir
- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf og menning
- Flóahreppur
- Hafa samband
- English
- Viðburðadagatal
Gaulverjabæjarkirkja
Smelltu hér fyrir upplýsingar: Gaulverjabæjarkirkja
Gaulverjabær er kirkjustaður og höfuðból frá fornu fari. Gaulverjabær er Landnámsjörð Lofts hins gamla frá Gaulum í Noregi. Nafnið hefur oft verið stytt í Bæ og hreppurinn þá nefndur Bæjarhreppur. Lítill vafi er á því að Gaulverjabær sé kenndur við menn frá Gaulum í Noregi, sem er hérað í Sogn og Fjordane. Gaulverjar þessir hafa sest að í Bæ, sem svo hefur verið nefndur eftir þeim. Hér fannst merkur silfursjóður árið 1930. Þetta er safn 360 silfurpeninga frá fyrstu öld Íslandsbyggðar. Einnig fannst hér árið 1974 útskorin fjöl úr furu, líklega frá 11. öld, skreytt í svokölluðum Hringaríkisstíl, og er hún ein örfárra slíkra sem varðveist hafa. Kirkjan sem nú stendur var byggð árið 1909. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Hraungerðiskirkja
Smelltu hér fyrir upplýsingar: Hraungerðiskirkja
Hraungerði er kirkjustaður, höfuðból og fyrrum þingstaður. Landnámsjörð Hróðgerðs hins spaka, ættföður Oddverja. Fyrst er getið kirkju í Hraungerði í skrá Páls biskups frá því um árið 1200 og hafa fjölmargar kirkjur verið á staðnum síðan þá. Núverandi Hraungerðiskirkja var vígð 4. sunnudag í aðventu, þann 21. desember 1902, af sr. Valdimar Briem prófasti. Eiríkur Gíslason, smiður frá Bitru í Hraungerðishreppi, var ráðinn til að teikna kirkjuna, gera byggingaráætlun og að lokum smíða hana. Kirkjunni hefur vel verið haldið við á undanförnum árum. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Laugardælakirkja
Smelltu hér fyrir upplýsingar: Laugardælakirkja
Laugardælir er lítil byggð rétt utan við Selfoss. Laugardælir var einn fjölfarnasti lögferjustaður landsins þar til brúin var byggð yfir Ölfusá hjá Selfossi 1891. Árið 1957 var ný kirkja vígð á Selfossi og Laugardælasókn lögð til hennar, utan nokkurra bæja sem færðust til Hraungerðissóknar. Staðurinn var kirkjulaus í nokkur ár eða til ársins 1965 þegar nýja kirkjan var byggð. Kirkjan er úr steinsteypu, 300 m² með pípuorgeli og tekur 70 manns í sæti. Bjarni Pálsson, byggingarfulltrúi á Selfossi, teiknaði hana og Sigfús Kristinsson, byggingarmeistari á Selfossi, var kirkjusmiður. Í garði Laugardælakirkju er legstaður Bobbby Fischer (1943-2008), hins litríka og umdeilda heimsmeistara í skák.
Villingaholtskirkja
Smelltu hér fyrir upplýsingar: Villingaholtskirkja
Villingaholt er kirkjustaður og var löngum stórbýli. Á 17. öld var hér prestur, Jón Erlendsson en hann var afkastamesti handritaskrifari landsins. Hann á sinn mikla þátt í að varðveita ýmsar helstu perlur handritanna með því að skrifa þau upp, m.a. að beiðni Brynjólfs Sveinssonar biskups. Frægasta ritið sem séra Jón bjargaði þannig frá glötun er Íslendingabók, en mörg handrita okkar eru rituð með hendi Jóns. Síðar bjó hér þjóðhagsmiðurinn og bóndinn, Jón Gestsson (1863-1945) en frá honum er komin mikil ætt hagleiksfólks. Jón teiknaði og byggði núverandi Villingarholtskirkju á árunum 1910-1911. Kirkjan er bárujárnsklædd úr timbri og á hlöðnum grunni. Kirkjan er með turni og sönglofti og tekur 100 manns í sæti. Ef gengið er syðst á lóð Þjórsárvers má sjá gamlan bæjarhól en þar stóð Villingaholtskirkja og bæjarhúsið áður. Í kjölfar viðverandi sandfoks og mikils tjóns í suðurlandsskjálftanum árið 1784 voru þau flutt um set að núverandi stað. Kirkjan var friðuð 1. janúar 1990 samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. 36. gr. þjóðminjalaga nr. 88/1989.
Mynd: Ólafur Ingi Ólafsson, Halakoti, 2023