Jafnréttisáætlun og jafnlaunastefna

Jafnréttisáætlun

Fyrirtækjum og stofnunum þar sem starfa 25 starfsmenn eða fleiri ber að setja sér jafnréttisáætlanir eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna. Þar skal sérstaklega fjalla um:

  • launajafnrétti,
  • laus störf, starfsþjálfun, endurmenntun og símenntun,
  • samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og
  • sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni á vinnustað.

 

Í jafnréttisáætlunum skulu sett fram markmið og unnið að aðgerðum sem samræmast eftirfarandi þáttum:

  • Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu vinna markvisst að því að jafna stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði. Atvinnurekendur skulu sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kvenna og karla innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf. Sérstök áhersla skal lögð á að jafna hlut kvenna og karla í stjórnunar- og áhrifastöðum.
  • Atvinnurekendur og stéttarfélög skulu gæta að stöðu fólks með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá á vinnumarkaði.
  • Konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá skulu greidd jöfn laun og njóta sömu kjara fyrir sömu eða jafn verðmæt störf.
  • Starf sem laust er til umsóknar skal standa opið jafnt konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá, sbr. þó 2. mgr. 16. gr.
  • Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að konur, karlar og fólk með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá njóti sömu möguleika til endurmenntunar, símenntunar og starfsþjálfunar og til að sækja námskeið.
  • Atvinnurekendur skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að gera starfsfólki kleift að samræma starfsskyldur sínar og ábyrgð gagnvart fjölskyldu, óháð kyni.
  • Atvinnurekendur og yfirmenn stofnana, félagasamtaka og íþrótta- og æskulýðsfélaga skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og notendur þjónustu verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni

 

Jafnlaunastefna

Flóahreppur hefur innleitt jafnlaunakerfi sem inniheldur jafnréttisáætlun og byggir jafnlaunastefna sveitarfélagsins á henni.
Jafnlaunakerfið og stefnur ná til allra starfsmanna sveitarfélagsins.

Flóahreppur fylgir gildandi lögum og kröfum varðandi það að jöfn laun séu greidd fyrir sömu eða jafnverðmæt störf óháð kyni.

Tilgangur jafnlaunakerfisins er að tryggja jafnrétti og jafna stöðu kynja hjá sveitarfélaginu. Markmiðið er að nýta hæfni, krafta og kunnáttu starfsmanna til fulls án þess að kynbundinn mismunur eigi sér stað. Með jafnréttisáætluninni eru stjórnendur og aðrir starfsmenn jafnframt minntir á mikilvægi þess að allir fái notið sín án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernis, kynþáttar, kynhneigðar, aldurs og stöðu að öðru leyti og að nýta beri til jafns þá auðlegð sem felst í menntun, reynslu og viðhorfum allra óháð kyni.
Kynjunum skulu greidd jöfn laun og þau njóta sömu kjara fyrir jafnverðmæt eða sambærileg störf sem og hvers konar frekari þóknana. Einnig skulu þau njóta sömu kjara hvað varðar lífeyris-, orlofs- og veikindarétt og hver önnur starfskjör eða réttindi sem metin verða til fjár í samræmi við gildandi kjarasamninga.

Jafnlaunastefnan er unnin í samræmi við þau lög og reglugerðir sem fjalla um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna sem og aðra mismunun. Jafnlaunakerfið skal rýnt árlega og taka stöðugum umbótum. Jafnlaunamarkmið skulu endurskoðuð út frá niðurstöðum launagreiningar. Stjórnendur skulu einnig skuldbinda sig til að viðhalda stöðugum umbótum, eftirliti og bregðast við óútskýrðum launamun og þeim frávikum sem koma fram við rýni á jafnlaunakerfinu.

Jafnréttisáætlun og jafnlaunastefna Flóahrepps 2023-2027