- Fréttir
- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf og menning
- Flóahreppur
- Hafa samband
- English
- Viðburðadagatal
Þingborg
801 Selfoss
Númer 8722
Kennitala 600606-1310
Símanúmer 480-4370
Heimasíða www.floahreppur.is
Netfang floahreppur@floahreppur.is
Íbúafjöldi 1. janúar 2022: 694
Flóahreppur er falleg og friðsæl sveit á Suðurlandi sem nær yfir austanverðan Flóann og liggur á milli laxveiðiánna Þjórsár og Hvítár. Svæðið er sögulegt og skartar fjölbreyttri og fallegri náttúru sem einkennist meðal annars af fjölbreytilegu gróðurfari og miklu fuglalífi. Flóahreppur samanstendur af þremur hreppum, Hraungerðis-, Gaulverjabæjar- og Villingarholtshreppi. Sveitarfélagið er 290 km² að stærð og búa 640 manns í hreppnum.
Í Flóahreppi er að finna mestu víðsýni í byggð á landinu. Frá Þjórsárveri er fjallahringurinn líklega hvergi á Íslandi víðari og meiri. Til norðurs sést til Þórisjökuls og í suðri blasa Vestmannaeyjar við. Til vesturs má sjá allt til Fagradalsfjalls á Reykjanesi og til Mýrdalsjökuls í austri. Á milli er svo stórkostleg fjallasýn; Selvogsheiði, Skálafell, Ingólfsfjall, Búrfell, Kálfstindar, Hlöðufell, Hestfjall, Vörðufell, Hekla, Tindfjöll, Þríhyrningur, Eyjafjallajökull og Seljalandsmúli.
Urriðafoss er í Flóahreppi í hinni voldugu Þjórsá. Mesta hraunbreiða jarðar, Þjórsárhraunið mikla, liggur undir stærstum hluta Flóans en það er mesta hraun sem runnið hefur á jörðinni í einu gosi frá því að ísöld lauk. Hraunið kom upp í miklu eldgosi austan Þórisvatns fyrir um 8.700 árum. Gossprungan var 20-30 km stór en úr henni kom upp gífurlegt magn hrauns, eða allt að 30 km³. Hraunið rann yfir Skeið, Flóa og í sjó framundan Stokkseyri og Eyrarbakka, um 140 km frá eldstöðvunum.
Menningarsagan í Flóanum hefur djúpar rætur og inniheldur vel kunnugt handverk og verslun, fyrri ára. Á svæðinu hefur í gegnum tíðina verið einstaklega mikið um hugvits- og hagleiksfólk og hafa komið merkar uppfinningar héðan. Má þar nefna Flóaáveituna en hún var mikið stórvirki á sínum tíma. Framkvæmdir við hana hófust vorið 1922 og mun hún hafa náð yfir 12 þúsund hektara land. Með tilkomu hennar urðu mikil umskipti í búskap og atvinnuháttum í Flóanum. Landbúnaður er helsta atvinnugreinin í sveitarfélaginu en ferðaþjónustan fer stöðugt vaxandi.
Finna má ýmsa afþreyingarmöguleika og þjónustu eins og gistingar, söfn og handverkshús, ferðamannafjárhús o.fl.. Það er því óhætt að segja að Flóahreppur sé lifandi samfélag með fjölbreytt mannlíf sem býður upp á mikla afþreyingu, fjölda viðburða og samkoma, nýjar hefðir og rótgrónar. Þjóðtrúin lifir í örnefnum og sögnum. Ein af Íslendingasögunum, Flóamanna saga, varðveitir minningu svæðisins sem einnig er paradís fyrir fuglalífs- og náttúruunnendur.
Sveitarfélagið Flóahreppur varð til við sameiningarkosningar 11.febrúar 2006 þegar íbúar þriggja hreppa, Hraungerðishrepps, Gaulverjabæjarhrepps og Villingaholtshrepps samþykktu sameiningu. Áður höfðu grunnskólar og leikskólar hreppanna þriggja sameinast í einn grunnskóla, Flóaskóla sem staðsettur er á Villingaholti og einn leikskóla, Krakkaborg sem staðsettur er í Þingborg.
Vel var unnið að undirbúningi sameiningu skólanna og leikskólanna sem tókst með ágætum og þannig komið í veg fyrir ýmsar hindranir sem gjarna verða við sameiningu sveitarfélaga þegar kemur að einum viðkvæmasta þætti í rekstri sveitarfélaga.
Ákveðið var að aðsetur stjórnsýslunnar yrði í Þingborg og þar var opnuð skrifstofa í júlí 2006 þegar sveitarstjóri var ráðinn.
Eftirfarandi hafa starfað sem sveitarstjórar frá stofnun Flóahrepps:
2006-2014 Margrét Sigurðardóttir
2014-2022 Eydís Þ. Indriðadóttiir
2022- Hulda Kristjánsdóttir
Á skrifstofu starfa ásamt sveitarstjóra, tveir skrifstofumenn, Hafdís Júlía Hannesdóttir í 80% starfi sem annast bókhald og launavinnslu og Anna Dóra Jónsdóttir í 75% starfi sem annast öll almenn ritara/gjaldkera störf.
Á skrifstofu Flóahrepps hefur umsjónarmaður fasteigna Brynjar Jón Stefánsson í 70 % starfshlutfalli aðstöðu sem og Ingibjörg Einarsdóttir húsvörður í Þingborg félagsheimili og íþróttahúsi Flóaskóla og Krakkaborgar í 100 % starfi.