Skógræktarfélag Villingaholtshrepps

Skógræktarfélag Villingaholtshrepps

https://skagas.is/ 

Erla Björg Aðalsteinsdóttir

849-0502

erlabjorga@gmail.com 

https://www.facebook.com/groups/216713475761333 

Skógræktarfélag Villingaholtshrepps var stofnað 8. apríl 1951. Aðal hvatmaður að stofnun þess var Óli Kr. Guðbrandsson þá verandi skólastjóri í Villingaholtskóla. Félagið fékk úthlutað landspildu í eigu hreppsins í Skagási og var fyrstu plöntunum plantað þar árið 1952. Sjá stofnfundargerð hér: https://skagas.is/2024/05/16/stofnfundargerd-skograektarfelags-villingaholtshrepps/ 

Skógræktin í Skagaási er gróskumikill trjálundur Skógræktarfélags Villingarholtshrepps. Skjólsæll unaðsreitur með ágætu aðgengi. Fólk er vinsamlegast beðið um að virða gönguleiðir og ganga vel um. Einungis er leyfilegt að grilla á merktum grillstað vegna eldhættu.


Úr bókinni Ársskógar: 
Skömmu eftir 1930 keypti Villingaholtshreppur jörðina Irpuholt þar í sveit sem er gömul hjáleiga frá Önundarholti, fjórði partur af heildarstærð þeirrar jarðar. Keypti sveitin 2/3 Irpuholts og setti þar upp stóðhestagirðingu og girðingu fyrir kynbótanaut. En þriðji hlutinn af landi hreppsins var ætlaður fyrir óskilafé og
almennt kallaður „Hreppsgirðing.“

Rétt fyrir 1950 fór Ungmennafélagið Vaka fram á það við hreppsyfirvöld að fá til afnota land innan Hreppsgirðingar í svonefndum Skagási. Fékk félagið þann blett til umráða en ekki varð neitt úr framkvæmdum að því sinni. Þann 29. desember 1951 vakti Óli Kr. Guðbrandsson skólastjóri í Villingaholtsskóla máls á því „hvort ekki væri rétt að stofna skógræktarfélag í hreppnum.“ Undirbúningsnefnd var þá kjörin og þann 8. apríl 1951 var Skógræktarfélag Villingaholtshrepps stofnað í skólahúsi hreppsins. Fyrstu stjórnina skipuðu Óli Kr. Guðbrandsson formaður, Árni Þórarinsson í Kolsholti og Árni Magnússon á Vatnsenda, síðar í Flögu.

Sama ár og félagið var stofnað gekk það í Skógræktarfélag Árnesinga. Óli Kr. Guðbrandsson mætti síðan á hvern einasta aðalfund til 1960 að einu ári undanskildu. Var hann einnig formaður félagsins frá stofnun þess til þess er hann hvarf úr sveitinni 1960.

Skógræktarfélag Villingaholtshrepps girti blettinn á Skagási og hóf þar skógrækt 1952. Þá voru gróðursettar þar 1.300 birkiplöntur, 510 plöntur af sitkagreni og 3.800 skógarfurur. Árið 1960 hafði félagið gróðursett 16.100 plöntur á Skagási. Þessi spilda var 1. ha. að stærð og árið 1953 telja félagsmenn sig hafa plantað þar 4-5 þúsund plöntum á því ári en einstaklingar settu þá niður 1.700 plöntur. „Árangur sæmilegur. Sitkagrenið lifði betur en furan.“ Einstaklingar sem um er rætt á aðalfundi Skógræktarfélagi Árnesinga 1954 eru bændur í Kolsholti og Þingdal en upp úr 1952 komust þar upp dágóðir heimareitir. Seinasti fundur félagsins í þessari lotu var haldin 4. september 1960. En eftir það gerðist lítið í skógrækt í Villingaholtshrepp þar til Skógræktarfélag Árnesinga fer að afgreiða plöntur til einstaklinga árið 1975.

Skagásgirðingin viðrist hafa verið vel staðsett. Þegar Böðvar Guðmundsson skoðaði hann 13. mars 1973 tók hann til þess að jarðvegur virtist nokkuð frjósamur í aðalbrekkunni. Eingöngu hafi verið plantað þar skógarfuru, sitkagreni og birki. Skógarfuran var orðin ljót en sitkagrenið hafði náð allt að 4 m hæð. Birkið var orðið 2-3 m hátt og taldi Böðvar þarft að platna því meira, einkum sem skjóltré við norðurhliðina upp á hæðinni: „Ef birki hefði verið plantað þar í upphafi gætu barrtrén náð allt að 10 m hæð í góðu skjóli af birkinu.“

Árið 1973 var girðingin kringum Skagás í lélegu ásigkomulagi og tók þá Ungmennafélagið Vaka að sér að koma henni í gott horf. Skömmu síðar tók Kvenfélag Villingaholtshrepps að sér umsjón með skógræktarstarfi í sveitinni. Á aðalfundi Kvenfélags Villingaholtshrepps 17. febrúar 1978 var samþykkt tillaga frá Höllu Aðalsteinsdóttir í Kolsholti um að félagið gerðist aðili að Skógræktarfélagi Árnesinga. Þórunn Kristjánsdóttir á Vatnsenda mætti fyrir hönd félagsins á aðalfundi Skógræktarfélags Árnesinga 19. apríl 1980 og flest árin síðan . Á formannafundi í ársbyrjun 1987 segir hún að Kvenfélagsstjórnin hafi „hug á að hafa skógræktarfélag því sumir eru ekki í Kvenfélaginu“.

En skógrækt fer aftur af stað í Skagási 1979 og á þrem árum voru gróðursettar þar 1.350 barrplöntur og árin 1988 og 1989 var gróðursett þar dálítið af sitkagreni frá
Tumastöðum.


Á 35 ára afmælisdegi Skógræktarfélags Villingaholtshrepps var það endurvakið þann 8. apríl 1987. Fyrsta stjórn þess skipuð Þórunni Kristjánsdóttir á Vatnsenda,
formaður, Kolbrún Júlíusdóttir í Kolsholti, ritari og gjaldkeri, og Kristín Stefánsdóttir á Hurðabaki, meðstjórnandi. Var stjórnin óbreytt til síðasta aðalfundar er Ólafur Sigurjónsson í Forsæti kom inn í stjórnina fyrir Kristínu.

Félagsmenn eru 45 og hefur stjórnin þann háttinn á að innheimta árgjald af hverju heimili þar sem menn eru félagsmenn – en ekki af hverjum einstaklingi.

Starfsemi Skógræktarfélags Villingaholtshrepps hefur farið hægt vaxandi. „Áhuginn er góður, en hann er hjá fáum“, segir Þórunn Kristjánsdóttir. „Starfið fer mest í að halda við Skagási, bæta hann, grisja og planta innan um eldri plöntur í reitnum. Við beinum svo huganum að skólablettinum í Villingaholti og síðan þarf að huga að nýjum reit.“ Plöntur eru teknar árlega og setta niður i heimareiti hjá félagsmönnum.


Heimildaskrá:
Páll Lýðsson. 1990. Árskógar, Skógræktarfélag Árnesinga 1940-1990 (bls. 136-
139). Skógræktarfélag Árnesinga.