Myndi: ÓIÓ
Líkt og notendur hafa margir hverjir tekið eftir þá er söfnun rúlluplasts ekki inni í sorphirðudagatali sveitarfélagsins. Það þýðir þó ekki að Íslenska gámafélagið muni ekki áfram sinna söfnun á rúlluplasti innan Flóahrepps.
Næsta söfnun á rúlluplasti verður aðra vikuna í febrúar og verða dagarnir auglýstir þegar nær dregur.
Á árinu verður söfnunin sett þannig upp að stærri notendur verða áfram á sömu söfnunartíðni og áður en söfnunarbíllinn kemur sjaldnar hjá smærri notendum.
Rúlluplast er rekstrarúrgangur líkt og annar úrgangur frá framleiðslu, þjónustu, verslun og öðrum rekstri og er ekki skilgreindur sem heimilisúrgangur. Sveitarstjórn ákveður fyrirkomulag söfnunar á heimilis- og rekstrarúrgangi í sveitarfélagi en ber bara ábyrgð á flutningi heimilisúrgangs - ekki rekstrarúrgangs.
Um heyrúlluplast:
- Úrvinnslugjald er lagt á hvert kg af plasti sem er notað til þess að pakka utan um heyrúllur.
Notendur (bændur) greiða úrvinnslugjaldið við kaup á rúlluplastinu.
Gjaldinu er ætlað að greiða fyrir meðhöndlun heyrúlluplasts og endurnýtingu eftir að það hefur þjónað
upphaflegum tilgangi sínum.
- Íslenska gámafélagið er viðurkenndur söfnunaraðili fyrir Úrvinnslusjóð.
- Sveitarfélög bera ekki sérstaka ábyrð á söfnun á rúlluplasti heldur er söfnunin og afsetning á ábyrgð Úrvinnslusjóðs. Sveitarfélagið skal þó tryggja að farvegur sé til staðar t.d með aðgengi að gámasvæði, líkt og fyrir annan rekstrarúrgang í sveitarfélaginu.
- Í Flóahreppi fer bíll reglulega frá ÍGF og safnar rúlluplasti hjá þeim sem það kjósa.
- Það er val hvers og eins hvort hann notist við söfnun á rúlluplasti á vegum ÍGF eða semji við annan aðila.
- Hægt að fara sjálfur með rúlluplast á söfnunarstöð í Hrísmýri – ekki þarf að nota klippikortið.
- Einnig er hægt að fara beint til Pure North í Hveragerði og frá greitt frá þeim fyrir hvert kg. Hægt er að notast við reiknivél á heimasíðu þeirra www.purenorth.is til að sjá hvað greitt er fyrir hvert kg.
- Margir af stærri notendum hafa farið þá leið að leigja gám undir rúlluplast sem sóttur er þegar hann er fullur.
Ef bændur þurfa ekki að fá söfnunarbílinn til sín eða villja skoða leigu á gámi undir rúlluplast er þeim bent á að heyra beint í ÍGF í síma 482 3371 / 577 5757 eða á netfangið igf@igf.is