Íþrótta- og afreksfólk Flóahrepps 2023

Kolbrún Katla og Fanney
Kolbrún Katla og Fanney

 

Íþrótta- æskulýðs- og menningarnefnd Flóahrepps valdi íþrótta- og afreksfólk Flóahrepps 2024 og veitti verðlaun á hátíðinni Fjör í Flóa laugardaginn 1. júní. 

Það var Kolbrún Katla Jónsdótti kraftlyftingarkona frá Lyngholti í Flóa sem hreppti titilinn í ár. 

Kolbrún Katla er fædd árið 2001. Hún hóf að æfa kraftlyftingar haustið 2021 og æfir og keppir fyrir hönd Kraftlyftingadeildar Breiðabliks. Kolbrún Katla keppir ýmist í unglingaflokki eða opnum flokki sem er allur aldur og er hún á síðasta árinu í unglingaflokki. 

Kolbrún náði strax góðum tökum á íþróttinni og keppti á sínu fyrsta móti vorið 2022 og náði eftirtektarverðum árangri. Hún átti mjög gott kraftlyftingarár á síðasta ári þegar hún varð Íslandsmeistari á opnu móti í sínum þyngdarflokki í mars, keppti á Heimsmeistaramóti unglinga í september og á Evrópumeistaramóti unglinga í október. Á öllum þessum mótum stóð hún sig frábærlega og hreppti fjölda verðlauna.

Hún hefur haldið áfram að bæta sig jafnt og þétt og hefur þegar tryggt sér keppnisrétt á Heimsmeistaramóti unglinga í september og Evrópumeistraramóti Unglinga í október. Einnig hefur hún tryggt sér lágmörk á HM og EV í fullorðinsflokki.

Kolbrún Katla er vel að titlinum komin og óskum við henni hjartanlega til hamingju með frábæran árangur.

 

Í ár var ákveðið að veita sérstaka viðurkenningu fyrir óeigingjarnt starf í þágu íþótta- og æskulýðsmála í sveitarfélaginu og hlaut Fanney Ólafsdóttir á Hurðarbaki þann heiður.

Fanney hefur tekið virkan þátt í ungmennafélags- og íþróttastarfi frá unga aldri.  Hún var 17 ára gömul þegar hún kom fyrst inn í stjórn Umf. Vöku og var þar formaður íþróttanefndar í 2 ár. Árið 1999 tók hún við formennsku í félaginu og gegndi því í sjö ár. Fanney var svo ritstjóri Áveitunnar um árabil og sat sem slíkur í stjórn Vöku og síðan Umf. Þjótanda frá stofnun félagsins. Fanney tók við formennsku í Umf. Þjótanda árið 2021 og gegndi því starfi þar til nú í ár.

Fanney var í stjórn HSK frá 2006-2015, fyrst sem varamaður og svo sem meðstjórnandi.

Hún er búin að vera formaður starfsíþróttanefndar HSK lengur en elstu menn muna og ötull keppandi í frjálsum íþróttum og starfsíþróttum í gegnum tíðina.

Hún hefur fengið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín t.d. silfurmerki HSK, starfsmerki UMFÍ og silfurmerki ÍSÍ.

Fanney er hefur staðið að lagningu gönguskíðabrautar í nafni Þjótanda undanfarin ár, fyrst með heimasmíðaðri græju til að gera gönguskíðaspor. Aukalega við íþrótta- og æskulýðsstarf er hún virkur meðlimur í kvenfélagsstörfum og lætur aldrei eftir sér að hjálpa til við hina ýmsu viðburði.

Við hjá sveitarfélaginu Flóahreppi erum þakklát fyrir allt sem Fanney hefur lagt af mörkum og vildum því heiðra hana sérstaklega. Það er ljóst að hún heldur áfram að vera virk í öllu starfi sem er ómetanlegt fyrir samfélagið okkar.

Til hamingju Kolbrún Katla og Fanney!