Fréttir af 17. júní í Flóahreppi 2023

17. júní var haldinn hátíðlegur í Flóahreppi að vanda.

Íbúar og fyrirtæki flögguðu íslenska fánanum víða í tilefni dagsins og sveitarfélagið flaggaði við stofnanir sínar. 

Sveitarstjóri Flóahrepps fór í heimsókn til allra íbúa sveitarfélagsins sem náð hafa 90 ára aldri og færði þeim veglega morgunverðarkörfu frá sveitarfélaginu.

Eftir hádegi var svo hátíðar- og skemmtidagskrá á útivistarsvæðinu í Einbúa. Þar stóð Ungmennafélagið Þjótandi fyrir fótboltakeppni, leikjum og þrautum fyrir allan aldur. Knapar settu hátíðlegan blæ á samkomuna með fánareið undir ættjarðaróð og stóðu heiðursvörð um fjallkonu Flóahrepps. Gestir sungu saman Lofsönginn, þjóðsöng Íslendinga. Fjallkona ársins var Kristín Lilja Sigurjónsdóttir í Egilsstaðakoti. Hún flutti ljóðið Flóavísur eftir Gísla Halldórsson.

Enn ég horfi yfir Flóann
og í hljóði vísu syng,
túnið, börðin, mýrar, móann,
mosaþúfur, berjalyng.
Lengst í fjarska sé ég síðan
safírbláan, mikið víðan
fagursveigðan fjallahring.
 
Hér er mjúkt og gott að ganga,
gata sjaldan upp í mót.
Mjaðarjurt og ilmgrös anga,
allra meina fæst því bót.
Skammt mun þó til hulduheima
hörmulegar sagnir geyma
Heljarstaðir, Hamarsgrjót.
 
Enginn veit hvað okkar bíður
eða hvar í kvöld mun gist.
Elfur tímans áfram líður,
eflaust margt í burtu flyst.
Fullvíst er samt það, að þó hann
þætti blautur, gamla Flóann
helst ég kýs sem himnavist.

 

Halla Kjartansdóttir í Ölvisholti hélt ræðu en hún kláraði sveinspróf í múraranum á dögunum.

Umhverfisverðlaun Flóahrepps árið 2023 voru veitt og í ár voru verðlaun veitt fyrir heimili og fyrirtæki. Hjónin Sigurður og Bjarnheiður á Neistastöðum 1 hlutu verðlaun fyrir heimili og Hurðarbaksbúið ehf. hlaut verðlaun í flokki fyrirtækja. Í verðlaun var viðurkenningarskjal frá sveitarfélaginu ásamt fallegum úlfareyni frá gróðrastöðinni Kjarri í Ölfusi. Að auki verður sett upp merki sem við bæina.

Hafdís Gígja Björnsdóttir í Uppsölum tók lagið með gestum og fékk aðstoð frá nokkrum ungum söngvurum. 

Dagurinn var hinn skemmtilegasti. Vel var mætt í Einbúa og veðrið lék við okkur. Gestir nutu samverunnar og veðurblíðunnar og alls þess góða sem svæðið og samfélagið okkar hefur upp á að bjóða.

Kvenfélögum og Ungmennafélaginu Þjótanda eru færðar þakkir fyrir þeirra framlag til hátíðarhalda ásamt öðrum þeim sem lögðu á sig vinnu við að gera daginn góðan svo sem með slætti og umhirðu í Einbúa, uppstillingum á rúllum fyrir þrautabraut og annað sem fylgir hátíðarhöldum sem þessum.