Frá 17. júní hátíðarhöldum

17. júní var haldinn hátíðlegur í Flóahreppi að vanda og var dagskráin vegleg í ár af tilefni 80 ára afmæli lýðveldisins.

Íbúar og fyrirtæki flögguðu íslenska fánanum víða í tilefni dagsins.

Sveitarstjóri Flóahrepps fór í heimsókn til íbúa sem búsettir eru í sveitarfélaginu sem verða 90 ára á árinu eða eru eldri en 90 ára. Fengu þau sumarblóm og glaðning, bókina Fjallkonan, þú ert móðir vor kær ásamt lýðveldiskökum sem bakaðar voru af tilefni stórafmælis lýðveldisins.

Í Einbúa var haldin hátíðar- og skemmtidagskrá.

Ungmennafélagið Þjótandi stóð fyrir fótboltakeppni, leikjum og þrautum fyrir allan aldur.

 

Fjallkonan flutti ljóð og var sú stund hátíðleg fyrir framan fjölmenni í brekkunni í Einbúa.

Fjallkona ársins var Þórunn Sturludóttir Schacht frá Fljótshólum og flutti hún ljóðið Flóinn og fólkið þar eftir Eirík Einarsson frá Hæli. 

Flóinn og fólkið þar


Menn segja þig kostlítinn, svartan,

hið síðsta um hið víðlenda þing;
ég lýsi þig búlegan, bjartan,
með bláfjallahringinn í kring.

Með samtaka hjálp vorra handa,
á héraðið stofnfé í sjóð,
er glæði þann ættjarðaranda,
sem einkennir farsæla þjóð.

Þá eykur þú fjallhringur fríður,

á fögnuð hvers sjáandi manns,

og hvelfingin, himininn víður,

mun hýrna við giftu vors lands.

 

Já, Flói minn, fallegur er hann

sá framtíðar himininn þinn:

í blíðviðris-hillingum ber hann

hvern bæ upp á gullstólinn sinn

 

- Eiríkur Einarsson frá Hæli

 

 

 

 

Kristín Lilja Sigurjónsdóttir í Egilsstaðakoti flutti ræðu en hún lauk meistaraprófi í kennslufræði frá Háskólanum á Akureyri á dögunum.

Sveitarstjóri kynnti nýja hefð sem snýr að því að planta nýju tréi í Einbúa á hverju ári. Í ár var gróðursettur fallegur Fjallareynir frá Gróðrastöðinni í Kjarri og verður það fyrsta tréið í Þjóðhátíðarlundi í Einbúa.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Alexander Freyr Olgeirsson trúbador frá Selfossi flutti nokkur lög og tók brekkan vel undir.

 

Að lokum var boðið upp á sérstakar lýðveldiskökur í boðið Forsætisráðuneytisins og sveitarfélagið bauð upp á kaffi og svaladrykki.

Gestir fengu eintak af bókinni Fjallkonan, þú ert móðir vor kær.

Dagurinn tókst vel og gleðin skein úr andlitum gesta. Góð mæting var í Einbúa og veðrið lék við hátíðargesti. Íbúar og aðrir eru hvattir til að nýta sér þetta frábæra útivistarsvæði í Einbúa. 

Undirbúningsnefnd 17. júní ásamt öllum þeim sem komu að undirbúningi, fegrun svæðisins og dagskránni á einn eða annan hátt eru færðar kærar þakkir fyrir þeirra mikilvæga framlag. 

 

Myndir hér að neðan eru teknar af Sven Struman.