- Fréttir
- Þjónusta
- Stjórnsýsla
- Mannlíf og menning
- Flóahreppur
- Hafa samband
- English
- Viðburðadagatal
Senn líður að árlegri fjölskyldu- og menningarhátíð í Flóahreppi sem haldin verður helgina 2 - 3. júní. Hátíðin byrjar á föstudegi þar sem fyrirtæki og fjölskyldur í Flóahreppi bjóða gesti velkomna á opin hús.
Á föstudagskvöldi verður svo hin geysivinsæla kvöldganga og þetta árið göngum við að bökkum Hvítar ofan Langholts og Hallanda þar sem áin rennur um skörð og kletta. Náttúra svæðisins er falleg og þar má finna fjölbreytt fuglalíf.
Laugardaginn 3.júní ætlum við að hefja daginn á jóga kl. 9:00 í Félagslundi. Í hádeginu hefst svo skemmtileg og fjölbreytt dagskrá í og við Þingborg, þar sem kvenfélögin í Flóahreppi verða með hinn margrómaða kökubasar og ungmennafélagið Þjótandi, ásamt íþrótta- æskulýðs- og menningarnefnd Flóahrepps, bjóða upp á fjölbreytta barna og fjölskyldudagskrá þar sem allir finna eitthvað við hæfi. Vélasýningin verður glæsileg að vanda og Ferguson félagið mætir á staðinn. Sölubásar, lifandi tónlist, myndlistarsýningar, kökuskreytingarkeppni, hjólarallý og margt fleira.
Á laugardagskvöldinu verður kvöldvaka í Þingborg þar sem boðið verður upp á grillsmakk og fjölbreytta tónlistarveislu.
Hlökkum til að sjá ykkur og eiga frábæra helgi saman í Flóahreppi.
Íþrótta-æskulýðs og menningarnefnd Flóahrepps, Kvenfélögin og ungmennafélagið Þjótandi.
Finnið okkur á Facebook Fjör í Flóa, Instagram menningifloa og á heimasíðu Flóahrepps fyrir frekari upplýsingar.