Breikkun Hringvegar frá Selfossi að Þjórsá

Mynd: SBS
Mynd: SBS

Sveitarstjórn Flóahrepps bókaði eftirfarandi á fundi sínum þann 18. febrúar vegna undirbúnings á breikkun hringvegar frá Selfossi að Þjórsá:

Sveitarstjórn Flóahrepps fagnar því að Vegagerðin vinni nú að undirbúningi á breikkun Hringvegarins Selfoss-Þjórsá. Sveitarfélagið hefur þegar setið einn fund með Vegagerðinni vegna málsins. Breikkun Hringvegarins í gegnum Flóahrepp ætti að auka umferðaröryggi til muna og leggur sveitarstjórn áherslu á að hvergi verði gefinn afsláttur varðandi umferðaröryggi vegfarenda á þessum vegkafla og á það jafnt við um akandi, hjólandi, gangandi og ríðandi umferð. Sveitarstjórn leggur jafnframt áherslu á að Vegagerðin eigi snemma í ferlinu samtal við landeigendur í Flóahreppi þar sem framkvæmdir munu óhjákvæmilega hafa áhrif á landeigendur meðfram Hringveginum.

Ljóst er að undirbúningur mun taka nokkur ár áður en til framkvæmda kemur en að mati sveitarfélagsins er mikilvægt að samvinna og samráð við hlutaðeigandi verði snemma í ferlinu.